Skip to content

Um höfnina

Í Grundarfjarðarhöfn fæst öll þjónusta sem nauðsynleg er sjófarendum;

Höfnin

Í Grundarfjarðarhöfn fæst öll þjónusta sem nauðsynleg er sjófarendum; vatn, rafmagn, ís, hafnsaga o.fl. Sem dæmi um þjónustuaðila mætti nefna fiskmarkaðir, löndunarþjónustu, ísverksmiðju, flutningafyrirtæki, netaverkstæði, kranaþjónustu, olíusölu, rafeindavirkjun, vélsmiðju, aðra iðnaðarmenn s.s. trésmiði, rafvirkja o.fl. Verslun og veitingastarfsemi er sömuleiðis að finna á svæðinu.
Opnunartími Grundarfjarðarhafnar : Breyting frá 01.08.2023

Mánudaga- Fimmtudaga ...... 08:00-19:00 Síðan bakvakt
Föstudagar .............................. 08:00-17:00 Síðan bakvakt
Laugardagar ........................... bakvakt
Sunnudagar .............................13:00-17:00 Síðan bakvakt

Engin breyting á þjónustustigi hafnarinnar hægt verður áfram að panta löndun hvenær sem er .
Við leggjum áherslu á skjóta og góða þjónustu og persónulegt viðmót. Við hvetjum þig til að kynna þér aðstöðu, þjónustu og gjaldskrá Grundarfjarðarhafnar.

130289_5354926cf60d447e932b8688ad81b408

Hafsteinn Garðarsson hafnarstjóri veitir allar upplýsingar í síma
438 6705 eða 863 1033.

Afli og Skipakomur

Hér fyrir neðan má sjá skjöl með samantekt Hafsteins Garðarssonar hafnarstjóra á lönduðum afla í Grundarfjarðarhöfn árin 2004-2016 eftir tegundum. Einnig tölur yfir vöruflutninga og annað, m.a. um fjölda skemmtiferðaskipa árin 2004-2016.

Hlaða skjali

Gjaldskrá

Hafnaraðstaða

Grundarfjarðarhöfn er góð höfn frá náttúrunnar hendi. Innsiglingin er mjög greið og aðkoma skipa inn í höfnina eins og best gerist.
Höfnin flokkast sem meðalstór fiskihöfn.
Markvisst hefur verið unnið að hafnabótum á undangengnum árum, m.a. að aukningu viðlegurýmis.

Norðurgarður

Í september 2002 fór fram fyrsta löndun við nýjan bryggjukant, 100 metra lengingu Norðurgarðs (stóru bryggju). Það var þó ekki fyrr en í apríl 2003 að framkvæmdinni var að fullu lokið og hún formlega vígð og tekin í notkun. Við þann viðlegukant er 8 metra dýpi á stórstraumsfjöru á um 100 metra kafla og vinnurými er á 4000 fermetra athafnasvæði sem býður upp á mikla möguleika. Fyrir ofan nýju lenginguna er 125 metra viðlega með 6,5 metra dýpi og 30 metrar með 4 metra dýpi.

Landfylling við Norðurgarð

Árið 2005 hófst undirbúningur að gerð landfyllingar við Norðurgarð en með þeirri framkvæmd varð til byggingarland á besta stað við höfnina. Á svæðinu, sem nú er nánast fullbyggt, hafa verið reistar byggingar eins og frystigeymsla Snæfrosts, hús Fiskmarkaðs Íslands og löndunarþjónustunnar Djúpakletts og geymsluhúsnæði Saltkaupa.

Aðstaða fyrir skemmtiferðaskip og farþega

Aðstaða hefur verið byggð upp til að geta þjónustað gesti skemmtiferðaskipa sem best. Sérstök flotbryggja með landgangi er á nýrri uppfyllingu á milli Norðurgarðs og Miðgarðs. Sú aðstaða nýtist vel farþegum sem ferjaðir eru í land af skipum sem liggja fyrir akkerum á firðinum eða farþegum skemmtibáta sem lagst geta að bryggjunni.

Hafnsaga

Skipum sem koma í Grundarfjarðarhöfn er ekki skylt að taka hafnsögumann, sbr. hafnarreglugerð Grundarfjarðarhafnar. Hafnsaga er þó í boði fyrir þá sem þess óska og skal skipstjóri láta starfsmann hafnar vita með minnst 24 klukkustunda fyrirvara að hann óski eftir þeirri þjónustu. Er hafnsögumanni skylt að fara til móts við skipið allt að 3 sjómílum undan Grundarfjarðarhöfn, ef skipstjóri æskir þess.

Rafmagn

Hægt er að landrafmagnstengja skip í öllum viðleguplássum. 63A og 125 A í flestum viðlegum. Á norðurgarði fremst er 1x 250 A

Löndunarkranar

Tveir löndunarkranar eru á Miðgarði.

Hafnarreglugerð

Stjórn og Starfsmenn

Grundarfjarðarhöfn við Nesveg, 350 Grundarfjörður.

Sími: 438 6705
Þjónustusími: 863 1033

 

Netfang: hofn@grundarfjordur.is port@grundarfjordur.is

Hafnarsjóður Grundarfjarðarhafnar,
b.t. Grundarfjarðarbæjar
Borgarbraut 16, 350 Grundarfjörður
Sími: 430 8500
Fax: 430 8501

Hafnarstjóri:
Hafsteinn Garðarsson – hofn@grundarfjordur.is port@grundarfjordur.is    8611033
Hafnarverðir:
Eyþór Garðarsson   ,  Steinar Þór Alfreðsson

Fundargerðir:

Smelltu hér til að finna fundargerðir hafnarstjórnar

Öryggismál

Hafnaryfirvöld leggja ríka áherslu á að öryggismál hafnarinnar og hafnarsvæðis séu í samræmi við lög og reglur.

Slysavarnir í höfnum

Um slysavarnir í höfnum gilda ákvæði VI. kafla reglugerðar um hafnamál nr. 326/2004. Þar er kveðið á um tilskilinn öryggisbúnað á hafnarsvæðum, fyrirkomulag búnaðarins og aðrar nauðsynlegar öryggisráðstafanir. 

Í öllum höfnum skal gera áætlanir um slysavarnir og skal hafnarstjórn skipuleggja innra eftirlit með þessum þáttum. Starfsmenn Siglingastofnunar skulu sannreyna virkni innra eftirlits hverrar hafnar einu sinni á ári eða oftar ef þörf þykir.

Öryggisáætlun Grundarfjarðarhafnar

Höfnin varð fyrst hafna til að samþykkja öryggisáætlun skv. reglum þar um árið 2001 og hefur síðan þá verið stuðst við og unnið eftir þeirri öryggisáætlun. 
Hér til vinstri getur að líta mynd af öryggisplani hafnarinnar sem hangir uppi á hafnarhúsinu. 

Hér er að finna gamla umfjöllun úr Morgunblaðinu – Öryggismálin í fyrirrúmi – þar sem m.a. var rætt um öryggishandbók hafnarinnar, sem Grundarfjarðarhöfn hafði þá haft forgöngu um að vinna skv. nýju reglunum. 

 

Siglingavernd 

Alþjóðasiglingamálastofnunin, IMO, samþykkti í desember 2002 kröfur um sérstakar ráðstafanir til að auka og efla siglingavernd í skipum sem eru í alþjóðlegum siglingum og hafnavernd í höfnum sem þjóna slíkum skipum. 

 

Til að fylgja eftir ráðstöfunum skv. ákvæðum alþjóðasamþykktarinnar vann höfnin árin 2003-4 verndaráætlun sína í fyrsta sinn og hefur hún verið endurnýjuð og staðfest með reglulegu millibili síðan. 

 

Saga Hafnarinnar

 

Góð höfn frá náttúrunnar hendi 

Siglingar hafa verið til Grundarfjarðar frá fornu fari, enda er þar talin vera mjög góð höfn frá náttúrunnar hendi. Í heimildum er greint frá skipakomum þangað allt frá landnámsöld. Gamli verslunarstaðurinn í Grundarfirði var við suðaustanverðan botn fjarðarins í landi jarðarinnar Grundar. Á tímum einokunarinnar höfðu kaupmenn þar aðstöðu. Stóðu verslunarhúsin á malarkampi, sem ýmist var nefndur Grundarkambur eða Grundarkampur. 

Við upphaf fríhöndlunar jókst vegur Grundarfjarðar mjög, þegar ákveðið var að þar skyldi verða einn þeirra sex kaupstaða sem stofnaðir voru með konungsúrskurði hinn 18. ágúst 1786. Hinir kaupstaðirnir voru Reykjavík, Ísafjörður, Akureyri, Eskifjörður og Vestmannaeyjar. Áttu þeir að verða miðstöðvar verslunar, útgerðar og iðnaðar hver í sínum landshluta og aðsetur opinberra stofnana og embættismanna.
Verslun var rekin á Grundarkampi fram eftir 19. öld, en eftir að allir áðurgreindir staðir misstu kaupstaðarréttindi sín árið 1836, nema Reykjavík, dró úr athafnasemi þar. Staðurinn var þó áfram löggiltur sem verslunarstaður. 

Frakkar í Grundarfirði

Eftir aldamótin 1800 höfðu Frakkar aðsetur í Grundarfirði og virðast hafa átt þar allar eignir, verið með kirkju og sjúkrahús auk þjónustu við skipaflota sinn. Þegar Frakkar hættu rekstri sínum um 1860, tóku þeir með sér öll mannvirki og grófu upp jarðneskar leifar landa sinna og höfðu með sér til Frakklands. Haft hefur verið á orði að Grundarfjörður sé eini bærinn á Íslandi sem fluttur hafi verið úr landi í heilu lagi. 

Verslunarstaðurinn fluttur í Grafarnes

Í lok 19. aldar er verslunarstaðurinn fluttur af Grundarkampi í Grafarnes og fékk hann löggildingu þar árið 1897. Fyrstu húsin, svonefnd Neshús, voru byggð í Grafarnesi árið 1906 ásamt skansi í fjörunni framaf til fisklöndunar. Árið 1928 var stofnað hlutafélag um rekstur íshúss í Grundarfirði og starfaði það í 6-7 ár. Um 1930 tók íbúðarhúsum að fjölga. Á fjárlögum áranna 1937 og 1938 veitti ríkissjóður 4.000 kr. til lendingarbóta í Grundarfirði gegn því að sveitarfélagið eða aðrir aðilar legðu á móti að minnsta kosti 2/3 hluta heildarkostnaðarins eða 8.000 kr. Þar sem fjármagn lá ekki á lausu á þeim tíma tók það sveitarfélagið tvö ár að hefja framkvæmdirnar, lengingu á bátabryggjunni svo unnt væri að afgreiða þar 10 til 15 tonna báta.

Eftir að hafnarbæturnar hófust í Grundarfirði var ákveðið að hefja byggingu hraðfrystihúss. Í kjölfar almenns borgarafundar í janúarmánuði árið 1940 fór fram söfnun á hlutafjárloforðum í Hraðfrystihús Grundarfjarðar hf. og fór svo að hver vinnufær maður innan sveitarfélagsins hét einhverju hlutafé. Fyrirtækið hóf svo að taka á móti fiski til vinnslu á miðju ári 1942. 

 
Þéttbýli byrjar að myndast

Eiginleg þéttbýlismyndun hófst í Grundarfirði upp úr 1940 og eftir að þorp tók að myndast þar fluttust margir búferlum þangað úr sveitinni eða stunduðu þar atvinnu jafnhliða búskapnum. Kauptúnið í Grundarfirði hefur risið frá grunni á einum mannsaldri. Íbúarnir hafa allt til dagsins í dag byggt afkomu sína á sjósókn og vinnslu sjávarafurða. Þeir hafa á skömmum tíma byggt upp nútímalegt þéttbýlissamfélag sem nú telur á tíunda hundrað íbúa. Frá Grundarfirði eru gerðir út togarar og smærri bátar, þrjú fiskvinnslufyrirtæki eru meðal stærstu atvinnuveitenda á staðnum, auk þess sem starfrækt eru smærri fiskverkunarfyrirtæki. Fjölmörg fyrirtæki eru starfrækt sem þjónusta útgerðina og fiskvinnslu. Margvíslegar hafnarbætur hafa verið gerðar í Grundarfjarðarhöfn frá því framkvæmdir hófust við fyrstu hafnarmannvirkin.

Tenglar